Drukknun er ekki eins og drukknun

Translations: – English –  汉语 tiếng ViệtEspañolFrançaisPortuguêsromânăDeutschSvenskaČeštinaРусскоAudio Version

Hann stökk alklæddur út í sjóinn, – skipstjórinn, fyrrum björgunarmaðurinn. Hann hafði ekki augun af manneskju, synti að fólkinu sem svamlaði milli fjöru og bátsins sem lá við ankeri. “Hann heldur örugglega að þú sért að drukkna,” sagði maðurinn við konu sína. Þau höfðu verið að busla og ærslast en stóðu nú kyrr. Sjórinn náðu þeim upp að hálsi. “Það er allt í lagi með okkur, hvað er að honum?” spurði hún svolítið pirruð. Maðurinn hrópaði “Allt í lagi hjá okkur!” og bandaði honum frá, en maðurinn synti áfram án afláts.

“Frá!” hreytti hann úr sér þegar hann kom að fólkinu sem skildi ekki hvað gekk á. Nokkrum metrum fyrir aftan þau var 9 ára dóttir þeirra að drukkna.

Loks þegar hún var örugg í fangi skipstjórans brast hún í grát kallaði á „pabba“.

Hvernig áttaði maðurinn sig – úr 15m fjarlægð – á því sem faðirinn gat ekki, aðeins 3m frá telpunni?

Drukknun er ekki æðisgenginn gusugangur og hróp á hjálp, eins og flestir halda. Skipstjórinn var sérþjálfaður, með áralanga reynslu af því að þekkja einkenni yfirvofandi drukknunar. Faðirinn hafði hinsvegar „lært“ af sjónvarpinu.

Þeir sem einhvern tíma eru nálægt vatni (við öll!) ættu að sjá til þess að allir viti fyrir hverju þurfi að vera vakandi, þegar fólk fer útí. Litla stúlkan gaf engin hljóð frá sér fyrr en hún gat hrópað grátandi á “pabba”.
_________________________

Þar sem ég hef verið strandvörður, varð ég alls ekki hissa á þessari frásögn. Drukknun er yfirleitt svo hæglát og hljóðlaus að nærstaddir átta sig alls ekki.

Handapatið, skvetturnar og ópin sem sjást í sjónvarpinu eru sjaldnast raunin.

Eðlislæg viðbrögð við drukknun “The Instinctive Drowning Response” kallar Francesco A. Pia, Ph.D. ósjálfráð viðbrögð fólks sem er að drukkna eða heldur það.
Viðbrögðin eru ólík því sem flestir halda, því það er mjög lítið buslað og ekkert veifað eða hrópað; ekki kallað á hjálp með neinum hætti. Drukknun er svo „lúmsk“  að hún er næst algengust banaslysa barna undir 15 ára (umferðarslys  algengari) – af þeim börnum sem munu drukkna á næsta ári, verður helmingur innan við 25m frá foreldrum/fullorðnum. Í 10% tilvika munu fullorðnir bókstaflega horfa á börnin drukkna, alveg grunlaus. (CDC)

“Drukknun lítur ekki út eins og drukknun”
segir Dr. Pia í blaði strandgæslumanna “Coast Guard’s On Scene Magazine” og lýsir ósjálfráðum viðbrögðum drukknandi manns:

1.         Það er undantekning ef sá sem er við það að drukkna getur kallað á hjálp. Öndunarfærin eru fyrst og fremst til að anda. Röddin er í öðru sæti.
Fullnægja þarf súrefnisþörfinni áður en hægt er að tala.

2.         Munnurinn er ýmist í kafi eða uppúr, – ekki nógu lengi uppúr til þess að ná að anda frá  – anda að – og kalla á hjálp. Ólíklegt er að fólk hafi nema rétt nægan tíma til að – anda snöggt frá sér og aftur að sér – áður en það byrjar að sökkva aftur.

3.         Drukknandi maður getur ekki veifað eftir hjálp. Hann teygir ósjálfrátt út handleggina og þrýstir niður. Þannig réttist líkamann af svo munnur helst uppúr meðan andað er.

4.         Eftir að ósjálfráðu lífsbjargarviðbrögðin (IDR) hafa tekið við, hefur fólk ekki lengur stjórn á handahreyfingum. Af lífeðlisfræðilegum orsökum getur drukknandi maður ekki „hætt við“ og notað viljastyrk til að veifa eftir hjálp, færa sig til björgunarmanns eða teygja sig í björgunartæki.

5.         Líkaminn er í uppréttur/lóðréttur allan tímann sem ósjálfráða sjálfsbjargarferlið er í gangi. Samt virðist fólk ekki sparka frá sér til að halda sér uppi. Án aðstoðar þjálfaðs björgunarmanns, getur maður aðeins barist um í 20-60 sekúndur áður en hann sekkur.

(On Scene Magazine: Haust 2006 bls. 14)

Þetta þýðir auðvitað ekki að sá sem hrópar á hjálp og bægslast um í örvæntingu, sé ekki í alvöru vanda;  „vatnsfelmtur“ (aquatic distress; skyndileg ofsahræðsla í vatni) hefur gripið hann. Ekki gerist þetta alltaf áður en ósjálfráða viðbragðsferlið tekur við. „Vatnsfelmtur“ varir ekki lengi – og öfugt við þá sem raunverulega eru að drukkna, getur fólkið hjálpað til við eigin björgun, – gripið í björgunartaug o.þ.h.

Leitið að einkennum yfirvofandi drukknunar:

  • Vatnið nær hátt – munnur við yfirborð
  • Höfuð hallast aftur – munnur opinn
  • Augun tóm og glansandi – geta ekki einblint („fókusað“)
  • Augun lokuð
  • Hárið niður á enni eða fyrir augum
  • Spyrnir ekki – er lóðréttur í vatninu
  • Ofandar eða sýpur hveljur
  • Reynir að synda en kemst hvergi
  • Reynir að koma sér á bakið
  • Ófær um að koma sér úr vatninu, t.d. við stiga

Þannig sérðu að þótt einhver falli útbyrðis og virðist vera í lagi – skalt þú ekki vera of viss. Það ólíklegasta er raunin, – sé einhver alveg að drukkna – lítur hann ekki út fyrir að vera að drukkna!  ann gæti virst vera að troða marvaðann og horfa upp á þilfar.

Hvernig getur maður verið viss?  Spurðu t.d.: “Er allt í lagi með þig?”
Ef hann getur á annað borð svarað, er sennilega í lagi með hann. En ef þú mætir tómu augnaráði, hefurðu e.t.v. minna en 30 sek. til að komast til hans.

Foreldrar! Börn að leik í vatni eru hávaðasöm. Þegar hættir að heyrast í þeim SKALTU FARA STRAX til þess að komast að orsökinni!

 

Translation by: .Eygló Yngvadóttir